*

þriðjudagur, 18. júní 2019
Innlent 26. febrúar 2017 16:05

Asíumarkaður fær aukið vægi

Ferðamönnum frá Asíu hefur fjölgað mikið hér á landi að undanförnu og nýjar tölur sýna að Kínverjar eru í þriðja sæti yfir þær þjóðir sem helst sækja Ísland heim.

Ásdís Auðunsdóttir
Haraldur Guðjónsson

Kína sem og aðrar Asíu- þjóðir eru sífellt stærri hluti af þeim ferðamönnum sem koma til landsins en samkvæmt tölum Ferðamálastofu tvöfaldaðist fjöldi kínverskra ferðamanna hér á landi í janúar milli ára. Á fyrsta mánuði ársins komu þannig 7.278 Kínverjar hingað til lands sem skipar þeim um leið í þriðja sæti yfir fjölmennustu þjóðernin sem sækja Ísland heim, eða 5,4% af heildarfjöldanum. Líkt og áður eru Bretar og Bandaríkjamenn öruggir í fyrstu tveimur sætunum enda um helmingur allra ferðamanna sem koma til landsins frá þessum tveimur löndum.

Þetta gríðarlega vægi sem Bandaríkin og Bretland hafa í íslenskri ferða- þjónustu hefur einmitt valdið því að aðilar innan greinarinnar hafa í auknum mæli lagt áherslu á að markaðssetja Ísland sem áfangastað enn frekar á stöðum á borð við Kína, Kanada, Þýskaland og fleiri staði með það að markmiði að fjölga eggjunum í körfunni. Það, sem og breytt regluumhverfi, fjölgun kínverskra nemenda í Evrópu og sviptingar í al­ þjóðaumhverfinu veldur því að Kínverjar eru sífellt áhugasamari um Ísland sem áfangastað.

Breyttar reglur auka aðgengið

Gray Line á Íslandi er eitt þeirra íslensku ferðaþjónustufyrirtækja sem hafa mikið beint sjónum sínum að mörkuðum í Asíu með það fyrir augum að auglýsa Ísland sem áfangastað. Þórir Garðarsson, stjórnarformaður fyrirtækisins, segir marga ólíka þætti valda því að Kínverjar ferðast í auknum mæli til Íslands. „Japanski markaðurinn hefur alltaf verið nokkuð stöðugur en menn eru hins vegar að sjá aukningu í komu Kínverja.

Sú aukning helgast m.a. af breyttum reglum í Kína sem gerir fólki kleift að ferðast sem einstaklingar en ekki aðeins í hóp eins og áður sem gerir það að verkum að hingað koma fleiri Kínverjar á eigin vegum og sem leigja bíla og annað. Auk þessa er íslenska sendiráð­ ið í Kína byrjað að gefa út vegabréfaáritanirnar sem þýðir að Kínverjar þurfa ekki lengur að fara í gegnum þriðja ríki eins og flest önnur lönd sem þurfa vegabréfsáritanir til að komast til Íslands. Allt gerir þetta það að verkum að Ísland verður kannski örlítið aðgengilegra en áður,“ segir Þórir. Hann segir því þó ekki að neita að bílaleigur hafi vissulega áhyggjur af aksturslagi Kínverja. „Það skýtur ef til vill skökku við að íslensk ökuskírteini séu ekki tekin gild í Kína en af einhverjum ástæðum eru kínversk ökuskírteini hins vegar tekin gild hér á landi.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is