Vikan byrjar vel á asískum mörkuðum og hækkuðu flestir þeirra allnokkuð í dag.

Ástralir tilkynntu í nótt að yfirvöld þar í landi ætluðu að tryggja innistæður innlánseigenda bankanna þar í landi og þá hefur Bloomberg fréttaveitan eftir viðmælendum sínum að björgunaraðgerðir í Evrópu eigi að öllum líkindum eftir að hafa jákvæð áhrif á Asíu.

MSCI Kyrrahafsvísitalan hækkaði í dag um 6,3% en síðasta vika var versta vika vísitölunnar í 21 ár þar sem hún lækkaði um tæp 20%.

Í Hong Kong hækkaði Hang Seng vísitalan um 9,5% eftir að yfirvöld tilkynntu að þau myndu nota stóran hluta gjaldeyrisforða síns til að fjárfesta innanlands og koma ró á fjármálamarkaði.

Í Kína hækkaði CSI 300 vísitalan um 8,5%, í Singapúr hækkaði Straits vísitalan um 6,8% og í Ástralíu hækkaði S&P 200 vísitalan um 5,6%. Lokað var í Japan í dag.