Stjórnvöld í Asíu íhuga nú að eyða milljörðum Bandaríkjadala til kaupa á hlutabréfum í því augnamiði að afstýra hugsanlegu hruni á verðbréfamörkuðum.

Fjárfestar myndu væntanlega taka slíkum aðgerðum af hálfu hins opinbera fagnandi enda óttast þeir frekara verðhrun á hlutabréfamörkuðum í nýmarkaðsríkjum, að því er kemur fram í Financial Times.

Hlutabréf hafa fallið í verði um 13% það sem af er þessu ári samkvæmt MSCI Asíu-vísitölunni. Gengi hlutabréfa hefur ekki lækkað jafn mikið á fyrstu sex mánuðum ársins síðan árið 1992 þegar vísitalan lækkaði um 23% í kjölfar mikilla efnahagsþrenginga í Japan.

Embættismenn í Taívan, þar sem helsta hlutabréfavísitala landsins hefur ekki mælst lægri í fimm mánuði, sögðu að ríkisstjórnin hefði biðlað til opinberra lífeyris- og tryggingarsjóða um að kaupa meira af innlendum hlutabréfum, jafnframt því að halda bréfunum til lengri tíma en áður.

Í frétt Financial Times segir að sérstakur stöðugleikasjóður landsins – sem hefur ríflega 16 milljarða dala fjárfestingagetu – verði notaður í þeim tilgangi að styðja við hlutabréfamarkaði samfara miklum erfiðleikum á alþjóðamörkuðum.

Ráðamenn í Víetnam hafa uppi sambærileg áform. Ríkisstjórnin hyggst koma á fót stöðugleikasjóði til að kaupa innlend hlutabréf, en helsta hlutabréfavísitala landsins hefur fallið í verði um næstum tvo þriðju á þessu ári.

Og í Pakistan eru kauphallaryfirvöld í Karachi undir auknum þrýstingi um að nota 440 milljarða dala stöðugleikasjóð sem settur var upp í síðustu viku til að fjárfesta í innlendum hlutabréfum. Hlutabréfaverð hækkaði mikið í verði í Pakistan á liðnu ári, en á öðrum ársfjórðungi þessa árs hefur hins vegar markaðsverðmæti félaga í kauphöllinni í Karachi lækkað um þriðjung. Að mati kauphallarinnar hefur þessi mikla lækkun skapað „kerfislæga áhættu" fyrir fjármálakerfi landsins.

Bein íhlutun stjórnvalda til styðja við hlutabréfamarkaði er ekki ný af nálinni í Asíu.

Eitt þekktasta – og jafnframt árangursríkasta – dæmið af slíkri aðgerð var árið 1998 þegar stjórnvöld í Hong Kong notuðu hluta af gjaldeyrisvarasjóðnum til að kaupa upp hlutabréfavísitölu Hong Kong sem leiddi til þess að mjög svo þrengdi að þeim sem voru í skortstöðum á hlutabréfamarkaðnum.