Stefán Haukur Jóhannesson, fastafulltrúi Íslands í Genf og formaður samninganefndar Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO, um markaðsaðgang fyrir iðnaðarvörur (NAMA, Non- Agricultural Market Access), sat hinn 10. apríl sl. fund utanríkisviðskiptaráðherra nokkurra ríkja í Austur-Asíu sem
var haldinn í Japan.

Shochi Nakavgawa, ráðherra efnahagsmála, viðskipta og iðnaðar í Japan, boðaði til fundarins, en tilgangurinn með honum var að ræða óformlega hvernig megi ýta undir áframhaldandi viðræður í Dóha-lotu WTO um aukinn markaðsaðgang fyrir iðnaðarvörur með það fyrir augum að ná samkomulagi um meginatriði á ráðherrafundi WTO í Hong Kong í desember n.k. Iðnaðarvörur teljast, í skilningi WTO, allar aðrar vörur en landbúnaðarvörur.

Á fundinum hittust utanríkisviðskiptaráðherrar og háttsettir embættismenn frá Hong Kong, Filippseyjum, Singapúr, Taílandi, Kína og Indónesíu. Ríki í austurhluta Asíu eru stórir útflytjendur iðnaðarvara og mynda einnig framleiðslukerfi sem nær yfir landamæri og nýtur góðs af hinu fjölþjóðlega
viðskiptakerfi og fríverslun. Ríkin viðurkenndu að á þeim hvíldi mikil ábyrgð að leggja sitt af mörkum til að þoka viðræðum um markaðsaðgang fyrir iðnaðarvörur áfram. Á fundinum var m.a. heitið fullum stuðningi við samningaferlið í Genf og því lýst yfir að markmið landanna væri að ná samkomulagi á ráðherrafundinum í Hong Kong um að færa út aukinn
markaðsaðgang. Utanríkisviðskiptaráðherrarnir lýstu því yfir að á þeim hvíldi sú skylda að veita pólitíska leiðasögn.

Í samtali við Stiklur, vefrit utanríkisráðuneytisins, sagði Stefán Haukur að fundurinn hafi verið gagnlegur og gefið þátttakendum betri innsýn í þau
flóknu ágreiningsefni sem við væri að etja. Mikilvægt væri fyrir samningaferlið að pólitískir ráðamenn létu viðræðurnar til sín taka, enda þyrfti atbeina þeirra á ögurstundum til að höggva á hnúta og gefa samningamönnum pólitíska leiðsögn. Sum ríkjanna á fundinum gætu ennfremur spilað mikilvægt hlutverk í að byggja brýr milli ólíkra sjónarmiða enda gerðu þau sér grein fyrir mikilvægi viðskipta fyrir hagvöxt og þróun.
Þess skal getið að nefndin um markaðsaðgang fyrir iðnaðarvörur, NAMA, heldur fundalotur í Genf með jöfnu millibili.

Allflest hinna 148 aðildarríkja WTO senda einn eða fleiri fulltrúa á fundina og eru þeir því afar fjölmennir, en eins og áður segir situr fastafulltrúi Íslands þar í forsæti. Síðasta fundalota var í Genf vikuna 14.?18. mars sl. en næsta
fundalota er áætluð vikuna 25.?29. apríl n.k.

Byggt á Stiklum, vefriti utanríkisráðuneytisins.