Stjórnvöld í Kína seldu 36,5 milljarða dala af bandarískum ríkisskuldabréfum úr safni sínu í ágúst. Salan er í beinum tengslum við lækkun Standard & Poor's á lánshæfi Bandaríkjanna í mánuðinum og áhyggjur fjárfesta af því að bandaríska hagkerfið standi á brauðfótum.

Kínverjar hafa síðustu misserin verið helstu kaupendur bandarískra ríkisskuldabréfa og eiga nú bréf upp á 1.137 milljarða dala.

Standard & Poor's lækkaði lánshæfiseinkuknnir Bandaríkjanna úr AAA í A+ vegna mikils halla á fjárlögum.

Bandaríska fjármálaráðuneytið sem birti upplýsingarnar á dögunum segir önnur Asíuríki sömuleiðis hafa selt úr ríkisskuldabréfasafni sínu í kjölfar lækkunar Standard & Poor's. Þar á meðal eru Hong Kong, Taívan og Síngapúr.

Breska ríkisútvarpið (BBC) bendir á að á sama tíma og fjárfestar hafi áhyggjur af versnandi horfum vestra og fjárfestar í Asíu beint sjónum sínum að öðrum fjárfestingarkostum þá sé enn talsverð eftirspurn eftir bandarískum ríkisskuldabréfum í öðrum heimshornum. Þannig hafi Bretar og Svisslendingar keypt samtals 80 milljarða dala af bandarískum skuldabréfum í ágúst.