Askar Capital hefur ákveðið að horfa í auknum mæli til erlendra fjárfesta án þess þó að missa sjónar á íslenskum viðskiptavinum sínum, að sögn Tryggva Þór Herbertssonar, forstjóra Askar. Eignastýringarsvið Askar sérhæfir sig í rekstri fasteignasjóða, framtaksfjármögnunarsjóða og vogunarsjóða, og einbeitir sér að fjárfestingum á erlendri grund þannig að fjárfestingar á Íslandi eru í lágmarki. „Við teljum því einfalt fyrir okkur að selja þjónustu okkar erlendis, þetta er alþjóðleg vara,” segir Tryggvi Þór.

Tryggvi Þór segir að liður í að skerpa á þessari áherslu sé ráðning Christian Yates í stöðu framkvæmdastjóra eignastýringarsviðs fyrirtækisins sem kynnt var í gær, en Yates var áður forstjóri alþjóðlegs eignastýringarsviðs Bear Stearns. „ Yates hreifst af viðskiptalíkani okkar og ég gat selt honum þá hugmynd að koma til okkar og byggja upp eignastýringuna. Við erum með mjög góða bakhjarla, þ.e. Milestone, og Askar er dýnamískt fyrirtæki, á sama tíma og hjá Bear Stearns og víðar eru menn að sleikja sárin eftir kreppuna og ekki jafn mikill vilji til að vaxa alþjóðlega og áður var. Við bindum vonir við að Yates víkki og þétti verkefnanet okkar og styrki starf okkar við að afla nýrra viðskiptavina,” segir Tryggvi Þór.  „Þetta er þrautreyndur maður, sérfræðingur um eignastýringu utan Bandaríkjanna og sérstaklega hefur hann sterk tengsl í Mið-Austurlöndum. Hann mun stýra allri uppbyggingu á Íslandi, þar sem við erum fyrst og fremst að byggja upp, en við munum horfa enn betur til útlanda. Það hefur alltaf verið markmiðið að koma okkar þjónustu á framfæri erlendis og ráðning Yates mun undirstrika það markmið enn frekar.”

5 milljarða sjóður í Austur Evrópu

Askar Capital hefur m.a. beint sjónum mjög að Asíu, einkum Indland og Hong Kong og nágrenni. Fyrirtækið hefur þó líka starfað á öðrum mörkuðum, m.a. í Evrópu og hafa nýverið komið á laggirnar sjóði ásamt Landsbankanum í Austur-Evrópu sem búið er að fullfjármagna. Sá sjóður er upp á um 50 milljónir evrur, eða rétt innan við 5 milljarða króna. „Við erum með í eignastýringu um 600 milljónir dollara, eða rétt tæplega 40 milljarða króna, og sviðið fer hratt vaxandi. Þannig má nefna að eignir í stýringu á Indlandi hafa t.d. vaxið um 80 milljónir dollara á innan við hálfu ári,” segir Tryggvi Þór.