Ráðgert er að halda aðalfund Askar Capital á morgun þriðjudag en þar verður Glitnir formlega ráðandi eigandi félagsins með 52% hlut. Saga Capital mun eignast 18 prósenta hlut og aðrir tíu aðilar afganginn.

„Staða félagsins er ekki góð en hún gæti verið verri í ljósi aðstæðna á markaði," segir Benedikt Árnason, forstjóri Askar Capital. „Við töpuðum miklu fé á árinu 2008 og þurftum að afskrifa milli átta og níu milljarða vegna tapa á fjárfestingum," segir hann enn fremur.

Unnið hefur verið að endurskipulagningu félagsins að undanförnu og náðust samningar við kröfuhafa um að breyta hluta af skuldum þeirra í hlutafé. Þannig var reksturinn tryggður áfram, segir Benedikt.

Alls 21 starfar hjá Askar Capital en 29 hjá bílalánafyrirtækinu Avant, dótturfyrirtæki Askar. Stjórnarformaður Askar er Karl Wernersson. Ný stjórn verður skipuð í kringum aðalfundinn.

Hafa umsjón með fasteignum víða um heima

Benedikt segir að verkefni Askar Capital séu einkum tvenns konar. Annars vegar er fyrirtækið með áhætturáðgjöf til íslenskra fyrirtækja, eins og raforkufyrirtækja og sveitarfélaga. Hins vegar er fyrirtækið með fasteignaráðgjöf og stýrir eignum og verkefnum sem áður tilheyrðu m.a. móðurfélaginu Mileston, víða um heim. Þar má nefna eignir í Evrópu, Hong Kong, spilavítiseyjunni Makao, Tyrklandi, Indlandi, Rúmeníu og Bandaríkjunum.

Benedikt segir að rekstur Askar sé í járnum en að þóknunartekjur dekki vel rekstrarkostnaðinn. Afskriftir á síðasta ári urðu hins vegar til þess að efnahagsreikningurinn varð mjög lélegur „og leiddi til þess að við uppfylltum ekki skilyrði um eiginfjárhlutfall. Því þurftum við að fara í endurskipulagningu með okkar kröfuhöfum til að lifa af."

Spurður út í lífshorfur félagsins segir Benedikt að það verði  nýrra eigenda og stjórnar að segja til um það. Í sjálfu sér sé ekkert því til fyrirstöðu að halda rekstrinum áfram og byggja ofan á hann, í ljósi þess að hann hafi verið endurskipulagður. Á hinn bóginn sé ekki óskynsamlegt að velta vöngum yfir m.a. sameiningu á markaði.

Sem kunnugt er tapaði Askar Captal 2,1 milljarði króna á undirmálslánum árið 2007 og var það tap, að sögn Benedikts, afskrifað það sama ár.