Nýr fjárfestingabanki undir stjórn dr. Tryggva Þórs Herbertssonar, Askar Capital var stofnaður formlega í dag en bankinn tekur til starfa 2. janúar. Starfsemi Aska verður í Reykjavík en þá verða einnig opnaður viðveruskrifstofur í London, Hong Kong, Búkarest og Lúxemborg þegar fram líða stundir.

Í tilkynningu segir að  eigið fé bankans við stofnun eru um ellefu milljarðar króna og fjöldi starfsmanna 40. Áætlað er að eignir í stýringu við lok fyrsta starfsárs verði 200 milljarðar króna.

Kjölfestufjárfestir Aska er Milestone en aðrir stofnendur  og hluthafar eru Fjárfestingarfélagið Aquila Venture Partners og Ráðgjöf og efnahagsspár.

Askar Capital sérhæfir sig í þróun og sölu fjármálaafurða sem grundvallast á undirliggjandi eignum eins og skuldabréfum, hlutabréf, gjaldmiðla og fasteignir með útreiknaða áhættu að leiðarljósi. Auk eigin viðskipta mun bankinn veita fyrirtækjum víðtæka fjármálaráðgjöf,  annast skulda-, gjaldmiðla-, eigna-, og áhættustýringu, fjármagna fjölbreytt verkefni fyrir viðskiptavini og taka sér stöðu við hlið þeirra í fjárfestingum þegar slíkt þykir henta.

Í stjórn Aska Capital sitja Haukur Harðarson, sem er formaður stjórnar, Guðmundur Ólason, varaformaður, Steingrímur Wernersson, Jóhannes Sigurðsson og Linda Bentsdóttir.


Auk forstjóra félagsins eru lykilstjórnendur þess Bogi Nils Bogason fjármálastjóri og  Tómas Sigurðsson yfirmaður lögfræðisviðs og framkvæmdastjórar tekjusviða, þeir Brandur  Thor Ludwig, Magnús Gunnarsson, Sigurður H. Kiernan, dr. Sverrir Sverrisson og Yngvi  Harðarson.