Kauphöllin hefur samþykkt að Askar Capital verði viðurkenndur ráðgjafi (e. Certified Adviser, CA) á First North Iceland markaðnum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kauphöllinni en hlutverk viðurkennds ráðgjafa felst í því að vera til ráðgjafar og aðstoðar fyrirtækjum við skráningu á First North og á meðan bréf þeirra eru í viðskiptum á markaðnum.

„Okkur er það mikið ánægjuefni að bjóða Askar Capital velkomið til starfa sem viðurkenndur ráðgjafi á First North Iceland.”  sagði Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar í tilkynningunni.

„Askar Capital er þriðja fyrirtækið sem verður viðurkenndur ráðgjafi á þessu ári en þetta er til vitnis um þann aukna þrótt sem er að færast í uppbyggingarstarf á hlutabréfamarkaði. Við hlökkum til að vinna með Askar Capital.”

Bjarki A. Brynjarsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar Askar Capital segir í tilkynningunni að First North sé spennandi vettvangur fyrir vaxandi fyrirtæki til þess að auka sýnileika og ná til fjárfesta.

„Það er ljóst að talsvert verk er framundan við að endureisa íslenskt viðskiptalíf og íslenskan hlutabréfamarkað,“ segir Bjarki.

„Við hjá Askar Capital teljum að First North sé góður vettvangur fyrir fyrirtæki í vexti til að auka aðgengi fjárfesta og er einnig góð leið til undirbúnings fyrir þroskuð fyrirtæki sem stefna að skráningu á Aðalmarkað. Það er ánægjulegt að vera komin í hóp ráðgjafa sem geta aðstoðað fyrirtæki á þessari leið.“

Askar Capital er sjöunda fyrirtækið sem gegnir hlutverki viðurkennds ráðgjafa á First North Iceland.