Stjórnendur Askar Capital hf. og indverska fjárfestingafyrirtækisins Skil Group tilkynntu í dag á Indlandi að fyrirtækin hefðu ákveðið að standa sameiginlega að stofnun framtaksfjármagnssjóðs (e. private equity fund). Sjóðurinn mun fjárfesta í fjölbreyttum og spennandi verkefnum á Indlandi og annars staðar í Suð-Austur Asíu. Bæði fyrirtækin munu leggja fram töluvert fjármagn í sjóðinn segir í tilkynningu.

Sjóðurinn mun starfa á fjölbreyttum sviðum og mun einkum fjárfesta í litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Dr. Tryggvi Þór Herbertsson, forstjóri Askar Capital, segir í tilkynningunni: „Við hjá Askar erum sannarlega ánægð með samstarf okkar við Nikhil Gandhi og Skil Group. Þau hafa verið og eru frumkvöðlar á þessu svæði og mikil þekking þeirra og reynsla mun styrkja starfsemi okkar.“ Haukur Harðarson, stjórnarformaður Askar: „Fjárfestingar í framtaksfjármagni eru kjarnastarfsemi hjá Askar Capital á heimsvísu. Stofnun sjóðsins er mikilvægt skref til að styrkja og auka við starfsemi okkar á þessu svæði.“

Nikhil Gandhi, stjórnarformaður Skil, segir í tilkynningu: „Staðfesta Askar til að sinna verkefnum á Indlandi er mjög ánægjuleg. Askar Capital hefur áorkað miklu á mjög skömmum tíma og samstarf okkar mun byggja á þessari velgengni. “Gandhi sagði jafnframt: „Þetta er mjög spennandi tækifæri fyrir Skil til að auka fjölbreytileika í þeim verkefnum sem við stöndum í með því að nýta þá hæfileika sem við höfum í fyrirtækinu. Mikil tækifæri eru í fjárfestingum í framtaksfjármagni á Indlandi um þessar mundir og því er þetta hárréttur tími til að hefja innreið okkar í þennan geira, og setja upp fjárfestingasjóði á þessu sviði.“

Askar Capital tilkynnti einnig um opnun á skrifstofu í fjármálahverfi Mumbai (Bombay) á Indlandi. Fjórir hafa þegar verið ráðnir og því fer starfsemi skrifstofunnar þegar á fullt. Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, var við opnun skrifstofunnar ásamt viðskiptasendinefnd frá Íslandi. Pavan Bakshi framkvæmdastjóri Askar Capital á Indlandi sagði: „Askar er þegar orðinn þátttakandi í fjárfestingum á sviði fasteigna, innviðauppbyggingar og framtakfjármagns, en þetta eru einmitt lykilatriði í framtíðarvexti Askar Capital. Efnahagsaðstæður á þessu svæði eru mjög hagstæðar um þessar mundir og þær eiga eftir skapa Íslendingum mikil tækifæri.“

Í tilkynningu kemur fram að Askar Capital hf. er íslenskur fjárfestingabanki sem veitir fagfjárfestum fjármálaþjónustu á sviði áhættu- og fjármögnunarráðgjafar og eignastýringar auk þess sem dótturfélag Askar veitir fasteignafjárfestingaráðgjöf víða um heim. Bankinn er með skrifstofur í Lúxemborg og á Indlandi auk þess sem Askar fasteignaráðgjöf er með skrifstofu í Rúmeníu og undirbýr opnun í Hong Kong. Askar hefur sótt um leyfi frá Fjármálaeftirlitinu til að opna útibú í Lundúnum. Bankinn er að stærstum hluta í eigu fjármálasamstæðunnar Milestone sem er í eigu þeirra Karls og Steingríms Wernerssonar. Um 80 manns frá ýmsum löndum vinna nú hjá Askar og dótturfélögum þess.

Skil Group er leiðindi frumkvöðull á sviði þróunar og fjárfestinga í innviðum á Indlandi. Meðal verkefna sem fyrirtækið tekur þátt í eru fjárfestingar í fasteignum, höfnum, járnbrautum og skipasmíðastöðvum. Nikhil Gandhi, sem er stjórnarformaður Skil, hefur um árabil verið meðal þekktustu og virtustu kaupsýslumanna á Indlandi.