Geir H. Haarde forsætisráðherra segir sjálfsagt að fara yfir þá spurningu hvort heppilegt sé að bankarnir hér á landi séu í senn viðskiptabankar og fjárfestingarbankar.

Hann sagðist ekki telja að reynslan af því fyrirkomulagi sem nú væri hér á landi væri „neitt sérstaklega slæm en þetta er alveg verðug spurning“, eins og Geir tók til orða í svari við óundirbúinni fyrirspurn Guðna Ágústssonar, formanns Framsóknarf lokksins, við upphaf þingfundar í gær.

Geir sagði sjálfsagt að fara vel og vandlega yfir málið en mikilvægt væri að rasa hvergi um ráð fram þegar bankakerfið ætti í hlut.

„Það er mjög mikilvægt að allir leggist á eitt um að styðja þannig við bakið á bönkunum að þeir komist í gegnum þá lausafjárkreppu sem gerir þeim erfitt að afla sér eðlilegs starfsfjár með lánum,“ sagði Geir.

„Þannig að ég hygg að það væri óheppilegt að ætla að gera róttækar breytingar á starfsumhverfi bankanna.“

Guðni Ágústsson þakkaði Geir svörin og sagðist sammála honum um að rasa ekki um ráð fram eða fara fram óvarlega gegn bönkunum og þeirra viðkvæmu starfsemi.

„En aðalmálið til þess að bankarnir komist í gang er að ríkisstjórn vinni sitt verk,“ sagði Guðni og bætti því við að bankarnir væru sammála sér um að mikilvægast væri að lækka vexti sem fyrst.