*

laugardagur, 8. maí 2021
Innlent 13. ágúst 2015 10:59

Askja hagnaðist um 82 milljónir

Talsverður viðsnúningur varð á rekstri Bílaumboðsins Öskju á síðasta ári.

Ritstjórn
Jón Trausti Ólafsson er framkvæmdastjóri Öskju.

Bílaumboðið Askja hagnaðist um 81,6 milljónir króna á síðasta ári, sem er töluverður viðsnúningur frá árinu 2013 þegar fyrirtækið tapaði 28,7 milljónum króna. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi fyrirtækisins.

EBITDA félagsins nam 274 milljónum króna í árslok og jókst um 161 milljón króna milli ára. Eignir fyrirtækisins námu 3.027 milljónum króna í lok ársins en skuldir voru 2.690 milljónir króna. Eigið fé fyrirtækisins nam því 337 milljónum króna í árslok samkvæmt efnahagsreikningi.

Stjórn fyrirtækisins ákvað að leggja til að ekki verði greiddur arður til hluthafa félagsins. Hlutfé félagsins nam 182,8 milljónum króna í árslok og var það allt í eigu Top ehf., en það félag er í eigu Frosta Bergssonar, Hjörleifs Jakobssonar, Knúts Grétars Haukssonar, Bert Hanson, Egils Ágútssonar og Jóns Trausta Ólafssonar.

Bílaumboðið Askja er með umboð á Íslandi fyrir Daimler AG, framleiðanda Mercedes-Benz bifreiða, og KIA Motors Corporation, framleiðanda KIA bifreiða. Jón Trausti Ólafsson er framkvæmdastjóri fyrirtækisins.