*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Innlent 7. september 2016 15:16

Askja hagnaðist um rúmar 200 milljónir

Bílaumboðið Askja jók hagnað sinn úr rúmum 80 milljónum árið 2014 í rúmar 200 milljónir í ár.

Ritstjórn
Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Bílaumboðsins Öskju.

Hagnaður Bílaumboðsins Öskju nam í fyrra 200,7 milljónum króna, en hann var 81,6 milljónir árið 2014. Rekstrartekjur jukust um tæpa 2,4 milljarða króna og námu 10,5 milljörðum króna. Framlegð jókst úr 1,3 milljarði 2014 í 1,8 milljarða í fyrra. Hagnaður fyrir skatta var í fyrra 254,1 milljón króna, en var árið 2014 103,7 milljónir.

Eignir Öskju voru um síðustu áramót 3,9 milljarða króna og jukust um tæpar 900 milljónir á milli ára. Eigið fé jókst úr 337,4 milljónum í árslok 2014 í 538,1 milljón um síðustu áramót. Skuldir námu um áramótin 2,9 milljörðum og eigið fé var 493,6 milljónir króna.

Bílaumboðið Askja er með umboð á Íslandi fyrir Daimler AG, framleiðanda Mercedes-Benz bifreiða og Kia Motors Corporation, framleiðanda Kia bifreiða. Félagið selur og sér um þjónustu fyrir Mercedes-Benz fólks- og atvinnubíla og Kia fólksbifreiðar.

Stjórn félagsins leggur til að ekki verði greiddur arður til hluthafa félagsins.