Á heimasíði Samtaka atvinnulífsins segir að aðilar vinnumarkaðarins í Evrópu hafa komist að samkomulagi um brýnustu úrlausnarefnin á vinnumarkaði í löndum Evrópusambandsins. Í sameiginlegri greiningu er þróun og horfum á evrópskum vinnumarkaði lýst og settar fram tillögur um hvað megi betur fara. Samkomulagið þykir mikilvægt innlegg í umræðuna um sveigjanleika og öryggi á vinnumarkaði í Evrópu sem verður til umfjöllunar á vettvangi Evrópuráðsins í desember.

Lítill hagvöxtur vandamál

Í greiningunni kemur m.a. fram að hagvöxtur í Evrópu á árunum 1996-2006 hafi aðeins verið 2,4% og hafi lítið aukist frá árinu 1986. Ljóst sé að breytinga sé þörf til að örva efnahagslífið. Atvinnuþátttaka hafi farið vaxandi sem sé jákvætt, en hún var 65,4% árið 2005 í ríkjum Evrópusambandsins (EU-15). Bent er á að auka þurfi aga í fjármálum hins opinbera en skuldir nokkurra ríkja Evrópusambandsins séu miklar, ekki síst í ljósi mikillar öldrunar Evrópubúa. Ljósu punktarnir eru þeir að verðbólga hefur verið lág á evrusvæðinu undanfarinn áratug og verðlag stöðugt. Í greiningunni er að finna meðfylgjandi mynd frá Seðlabanka Evrópu (ECB) um verðbólgu og verðbólguvæntingar á evrusvæðinu frá 1999-2007 en hún sýnir hversu góður árangur hefur náðst við að hemja verðbólguna.

Skýr framtíðarsýn

Meginverkefnið sem blasir við stjórnvöldum í löndum Evrópusambandsins, samkvæmt því sem segir í fréttinni, er skýrt að mati aðila vinnumarkaðarins. Það verður að skapa fyrirtækjum hagstæðari rekstrarskilyrði til að Evrópa geti haldið stöðu sinni meðal þjóða heims og ráðast verður í umbætur á vinnumarkaði. Það er jafnframt mat þeirra að auka verði áherslu á nýsköpun og tækniþróun á sama tíma og framleiðni verði aukin. Leggja verði áherslu á framleiðslu vandaðra vara og menntun ævina á enda. Að öðrum kosti verði Evrópubúar undir í alþjóðlegri samkeppni.