Mitt í góðærinu sumarið 2017 mátti rekast á varnaðarorð frá Sigríði Ingvarsdóttur, þá framkvæmdastjóra Nýsköpunarmiðstöðvar í Viðskiptablaðinu. Þar varaði hún við því að þegar mikil þensla ríkti í ákveðnum atvinnugreinum væri hætt við að einsleitni í atvinnulífinu myndi aukast.

„Það er svo margt sem sækir í sama farið þar sem uppgangurinn er mestur. Hættan er sú að þensla til dæmis í ferðamennsku og byggingageira sjái okkur fyrir svo miklum vexti að eggjunum fjölgi í sömu körfunni og menn gleymi þörfinni á annars vegar rannsóknum og hins vegar raunverulegri nýsköpun,” segir Sigríður og bætir við að Nýsköpunarmiðstöð hafi ekki farið varhluta af áhrifum þenslu síðustu ára. „Öfgar í báðar áttir eru ekki góðar og vonandi erum við á leið inn í tímabil meira jafnvægis þar sem fjölbreytni og nýsköpun fær rými við hliðina á öflugum iðnaði og framleiðslugeira.”

Nýsköpunarmiðstöð Íslands var stofnuð árið 2007 með samruna Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins. Í samfloti var líka Impra, miðstöð fyrir frumkvöðlastarfsemi, þar sem Sigríður hafði starfað frá árinu 2003. Hún hefur því starfað með frumkvöðlum í meira en hálfan annan áratug og fyrir vikið hafa fáir betri yfirsýn yfir þróun nýsköpunar á þessari öld en hún. Sigríður segir að íslensk fyrirtæki séu í eðli sínu orðin alþjóðleg og þau sækja í aðstæður, stuðning og innviði sem henta þeim best. Hlutverk Nýsköpunarmiðstöðvar sé að hlúa að þessum þáttum og þannig styrkja samkeppnishæfni atvinnulífsins.

„Það er ávinningur fyrir íslenskt þjóðfélag að vel takist til varðandi hagnýt rannsóknarverkefni, öfluga sprotastarfsemi og að unga út góðum viðskiptahugmyndum sem vaxa síðan upp í burðug fyrirtæki. Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur staðið að árangursríkum stefnumótum vísinda og viðskipta alla sína tíð og íslenskt atvinnulíf þarf á því að halda að hafa öfluga stofnun eins og Nýsköpunarmiðstöð. Okkar hlutverk er að stuðla að samkeppnishæfu umhverfi og faglegum stuðningi fyrir frumkvöðla og fyrirtæki á borð við það sem best gerist í okkar samanburðarlöndum. Við viljum auka sókn í alþjóðlega rannsóknasjóði í samvinnu við íslenskt atvinnulíf, undanfarið höfum við lagt mikla áherslu á umsóknir í erlenda rannsóknasjóði með góðum árangri. Við erum jafnframt að vinna að því að fjölga verkefnum er lúta að grænkun atvinnulífsins og minna kolefnisfótspori. Nýsköpunarmiðstöð er síkvik stofnun sem reynir að mæta viðskiptavinum sínum og samstarfsaðilum með góðri og faglegri þekkingu á mörgum sviðum. Við höfum víðtækt lagalegt hlutverk og okkur eru ætluð margvísleg spennandi og krefjandi verkefni. Við leggjum okkur ávallt fram um að sinna af kostgæfni starfsemi okkar á sviði íslenskra tæknirannsókna og aðstoðar við frumkvöðla og fyrirtæki,“ segir Sigríður.

Viðtal við Sigríði Ingvarsdóttur má lesa í held sinni í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .