Síðasta ár var erfitt að mörgu leyti vegna kórónuveirunnar en við erum fyrirtæki í matvælaframleiðslu og þrátt fyrir að margir aðrir þættir samfélagsins lamist þá þarf fólk áfram að næra sig,“ segir Gunnþór Björn Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.

Innan samstæðu Síldarvinnslunnar má finna Berg-Hugin ehf., Fóðurverksmiðjuna Laxá ehf., Fjárfestingafélagið Vör ehf., Runólf Hallfreðsson ehf. og Seley ehf. SVN eignafélag ehf. var innan hennar á síðasta ári en á aðalfundi þessa árs var ákveðið að greiða hluti í félaginu út sem arðgreiðslu til hluthafa.

„Ástandið vegna Covid setti starfseminni ákveðnar skorður en starfsfólk, bæði á sjó sem á landi, var mjög ábyrgt. Við fengum engin alvarleg tilfelli inn í fyrirtækið og megum þakka það góðu og vökulu starfsfólki okkar. Auðvitað þurftu allir að leggja á sig heilmiklar fórnir og laga sig að breyttum aðstæðum en út frá rekstrarlegum sjónarmiðum gekk það ágætlega,“ segir Gunnþór.

Því fer þó fjarri að faraldurinn hafi aðeins haft áhrif á samstæðuna heima fyrir enda voru markaðir fyrir sjávarfang meðal þess sem riðlaðist í faraldrinum. „Við þurfum alltaf að glíma við einhverjar sveiflur en í pestinni voru nokkrar tegundir sem fóru á talsvert flakk. Verð á botnfiskafurðum lækkaði en það vó upp á móti að það gekk betur að selja uppsjávarfiskinn, sérstaklega makrílinn og síldina,“ segir Gunnþór.

Sem kunnugt er varð messufall á loðnuvertíðum áranna 2019 og 2020 þar sem ekki fannst nægur fiskur til að réttlætanlegt væri að halda til veiða. Leit gekk illa framan af á þessu ári en loksins fannst eitthvað undir lok janúar. Aflaráðgjöf þessa árs hljóðaði því upp á 127 þúsund tonn sem er ekki nema brot af því sem var þegar mest lét.

„Það gefur auga leið að það er erfitt að mæta því þegar svona sveiflur verða en það verður að segjast að það spilaðist ofboðslega vel úr litlum kvóta á þessu ári. En þetta er það sem fyrirtæki í greininni verða að laga sig að hverju sinni. Aðstæður geta verið kvikar og sveiflast til og frá, bæði stofninn sem og markaðir,“ segir Gunnþór. Það bendir síðan allt til betri tíðar hvað loðnuna varðar en ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar þetta árið hljóðar upp á rúmlega 904 þúsund tonn. Nýkomin ráðgjöf í loðnunni endurspeglar vel hvernig fyrirtækin þurfa að vera tilbúin til að mæta miklum sveiflum.

Óþolandi málfutningur

Það eru ekki aðeins markaðir og fiskigöngur sem geta haft áhrif á greinina heldur geta breytingar á legu landsins í stjórnmálum sveiflað henni til og frá. Afkoma greinarinnar er reglulega á milli tannanna á fólki og nægir í því samhengi að nefna umræðuna fyrir nýafstaðnar kosningar.

„Íslenskur sjávarútvegur er með mjög verðmæta auðlind í höndunum, á fyrirtækjum í sjávarútvegi hvílir sú skylda að hámarka verðmæti hennar fyrir land og þjóð. Þessi neikvæða orðræða og togstreita hefur ekki góð áhrif á hana. Það er eiginlega ekki boðlegt að þurfa að sitja undir málflutningi um að brytja þurfi fyrirtækin niður eða að rétt sé að setja störf fólks og lífsviðurværi á uppboð reglulega. Það fór ekki mikið fyrir umræðu um sóknarfæri eða aukna verðmætasköpun, en þar eigum við að vera,“ segir Gunnþór.

Stungið í samband í stað ljósavéla

Áhrif greinarinnar á umhverfið eru meðal þess sem verið hefur í umræðunni enda skipin í gegnum tíðina verið afar frek á jarðefnaeldsneyti. Íslenskur sjávarútvegur hefur stigið stór skref varðandi notkun á endurnýjanlegum orkugjöfum, þannig er fiskimjölsiðnaðurinn, sem er mjög orkufrekur, raforkuvæddur að stórum hluta og endurnýjun skipaflotans miðar að því að byggja hagkvæmari skip. Í umræðunni gleymist oft að fyrirtækin sjálf hafa gengið á undan til að reyna að draga úr sótspori sínu. Í byrjun september urðu til að mynda þau tímamót í Norðfjarðarhöfn að landtengingarbúnaður fyrir skipin var ræstur.

„Þarna er á ferð mjög stórt skref í orkuskiptunum. Tengingin er mjög öflug, um 500 kW, og þýðir að um leið og skipin koma í land er hægt að tengja þau við kerfið. Þá keyra öll kerfi þeirra á innlendu rafmagni í stað ljósavéla. Með þessu sparast um 300 þúsund lítrar af olíu á ári þegar tengingarbúnaður er kominn í öll skipin,“ segir Gunnþór. Kostnaður við verkefnið, rúmlega 100  milljónir króna, kom úr sjóðum Síldarvinnslunnar að undanskildum tæplega 20 milljóna króna styrk úr orkusjóði.

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins, sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér .