Ingvar, sem er með BS og MS gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands auk þess að vera með próf í verðbréfamiðlun, starfaði við skuldabréfamiðlun innan Íslandsbanka áður en hann tók við sem forstöðumaður verðbréfamiðlunar bankans.

„Ég hef starfað nokkuð lengi innan deildarinnar og sit ennþá í sama stólnum og ég gerði áður en ég tók við nýja starfinu. Starfsbreytingin felst að miklu leyti í því að ég tek að mér aukna ábyrgð og leiði teymið formlega. Ég er búinn að vinna hjá Íslandsbanka síðan 2009 en bankinn er í rauninni minn uppeldisvinnustaður þar sem ég byrjaði sem sumarstarfsmaður í greiningardeild bankans á sínum tíma og var þá aðallega að vinna í efnahagsmálunum." Að sögn Ingvars er hann mjög ánægður í starfi hjá Íslandsbanka og þykir starf sitt mjög skemmtilegt.

„Íslandsbanki er frábær vinnustaður og tíminn frá því að ég sneri aftur hingað hefur verið mjög góður. Við höfum unnið að mörgu á þessum tíma sem hægt er að vera stoltur af. Við höfum fjármagnað hin ýmsu fyrirtæki, byggt upp markaðinn fyrir sértryggð skuldabréf og losað um aflandskrónur. Við höfum gefið út mikið af skuldabréfum fyrir fyrirtæki, stofnanir, sveitarfélög og þess háttar. Það er búinn að vera mikill gangur í þessari vinnu og ég tel okkur geta verið mjög stolt af árangri okkar. Ég bý einnig mjög vel að því að hafa öflugt og reynslumikið teymi á bak við mig í verðbréfamiðluninni. Það eru ákveðnar áskoranir framundan núna, sérstaklega á hlutabréfamarkaði, en þær eru spennandi. Við vorum með fjármagnshöft hér á landi, en þessi höft keyrðu upp eignaverð á hlutabréfamarkaði innanlands. Þessi hækkun hefur svo verið að ganga til baka eftir að höftunum var að mestu aflétt og við erum að súpa seyðið af því í dag. En það er einmitt í svona ástandi sem myndast spennandi áskoranir og tækifæri."

„Mín helstu áhugamál eru fjármál, hagfræði, kvikmyndir, tónlist og lestur góðra bóka. Svo hef ég einnig áhuga á fréttum og stjórnmálum. Auk þess spila ég badminton og körfubolta. Ég spila badminton einu sinni í viku með gömlum skólafélögum mínum og fleirum. Flestir af okkur í hópnum koma úr sama menntaskóla en svo eru einnig menn sem koma úr öðrum áttum. Þetta er góður hópur sem hefur spilað saman í nokkur ár. Þó að þetta sé aðallega til gamans gert er stutt í keppnisskapið. Við höldum tölfræði yfir árangurinn, það eru tvær deildir og því geta menn fallið niður um deild og einnig unnið sig upp um deild. Það er því vinaleg samkeppni í gangi en engin miskunn sýnd. Ég er giftur Kristjönu Rós Oddsdóttur Guðjohnsen og við eigum einn fimm mánaða strák sem heitir Dagur Kristinn. Það er mjög ánægjulegt og gaman að eiga svona góða að og mikið fjör sem fylgir syninum," segir Ingvar.