Ef nánar er litið á þær leiðir sem helst eru nefndar í peningamálastjórn landsins má sjá að þær eiga ýmislegt sameiginlegt, að mati Þorsteins Víglundssonar, framkvæmdastjóra SA. Í grein í Vísbendingu segir hann að upptaka evru eða annars gjaldmiðils sé fastgengisstefna en það eigi líka við um þær leiðir sem helstar hafa verið nefndar í tengslum við breytta peningamálastjórn með krónu. Leiðirnar krefjist þess allar að vextir og verðbólga séu innan skilgreindra vikmarka, að aga sé gætt í opinberum fjármálum og að hagstjórnin styðji vel við gengismarkmið. Lesa má greinina á vefsíðu SA .

Þorsteinn Víglundsson.
Þorsteinn Víglundsson.

„Sú vegferð sem leggja þarf í er því að stærstum hluta sú sama, þó svo menn greini á um endanlegan áfangastað. Að ætla ekkert að hafast að fyrr en endanleg niðurstaða í því karpi liggur fyrir er ámóta skynsamlegt og að sitja í bíl á bensínstöð á Ártúnshöfða og neita að leggja af stað fyrr en farþegar komi sér saman um hvort haldið skuli til Akureyrar eða Húsavíkur. Ef fastgengisstefna er sú leið sem við teljum skynsamlegast að fara þá er kominn tími til að halda af stað,“ segir Þorsteinn.

Verðbólgan og krónan

Í greininni ræðir Þorsteinn um þær áskoranir sem hann segir að sigrast verði á til að ná hér sæmilegum efnahagslegum stöðugleika.

Fyrst nefnir hann verðbólguna, sem hann segir að hafi losnað úr böndunum á þensluskeiði áranna 1997 til 2000. Verulegt ójafnvægi hafi myndast í efnahagslífinu, sem hafi ekki horfið síðan. „Verðbólga áranna 2000 - 2012 hefur að jafnaði verið nærri 6% á ári, langt yfir fyrrnefndu verðbólgumarkmiði SÍ. Á þeim rösku tveimur áratugum sem liðnir eru frá gerð þjóðarsáttarsamninganna hefur verðlag hér hækkað um 180% samanborið við um 40% í Þýskalandi á sama tíma svo dæmi sé tekið. Okkur hefur gengið afar illa að halda skynsamlega á hagstjórninni þegar vel hefur árað í efnahagslífinu.“

Bendir Þorsteinn á að helst hafi náðst sæmilegur verðlagsstöðugleiki á tímum efnahagssamdráttar, en það eigi ekki við nú. Undanfarin þrjú ár hafi verðbólga verið um 5% að jafnaði á ári og það gefi ekki góð fyrirheit um verðlagsstöðugleika þegar efnahagslífið er tekið að rétta úr kútnum.

Í öðru lagi nefnir Þorsteinn krónuna, sem hann segir hafa verið einn orsakavalda verðbólgunnar. Miklar sveiflur á gengi hennar hhafi valdið íslensku atvinnulífi og heimilum miklum búsifjum og ljóst að ekki verði lifað við slík starfsskilyrði.

„Á undanförnum tveimur áratugum hefur virði íslensku krónunnar helmingast. Á sama tíma hefur verðmæti evrunnar (mælt út frá viðskiptavog 20 stærstu viðskiptalanda aðildarríkjanna) staðið í stað. Gengisveikingin ein og sér er mikið vandamál fyrir atvinnulíf og heimili en sá mikli óstöðugleiki sem einkennt hefur krónuna er ekki síður vandi,“ segir Þorsteinn.

Sökum þess hve Íslendingar flytja inn stóran hluta aðfanga og neysluvara þjóðarinnar veldur veiking krónunnar mikilli verðbólgu. Segir hann að gróflega megi áætla að 10% gengisveiking leiði til um 4-5% verðbólgu.

Laun og verðlag

Þriðja atriðið sem Þorsteinn telur til er víxlverkun launa og verðlags. „Á undanförnum tveimur áratugum hefur launavísitala hækkað um 287%! Kaupmáttur launa hefur á sama tíma aukist um 35%. Ef við ætlum að ná hér stöðugleika í efnahagsmálum verðum við að stöðva þessa víxlverkun. Sjálfsagt má deila um hvort launin eru að elta verðlag eða öfugt. En þegar hlaupið er endalaust í hringi skiptir á endanum engu máli hver eltir hvern. Það sem máli skiptir er að í slíkum eltingarleik miðar ekkert áfram.“