Áskrifendum Disney+ streymisveitunnar fjölgaði um 7,9 milljónir á öðrum ársfjórðungi rekstrarárs Walt Disney. Þetta kemur fram í grein hjá Wall Street Journal. Áskrifendur streymisveitunnar voru 137,7 milljónir í lok ársfjórðungsins.

Fjölgunin var fram úr væntingum greiningaraðila sem höfðu spáð fyrir um 5,2 milljóna fjölgun, þannig að áskrifendur yrðu samtals 135 milljónir. Bob Chapek, forstjóri Disney, segir markmið félagsins að vera með á bilinu 230 til 260 milljónir áskrifenda fyrir september 2024.

Chalep segir stefnt að því að bjóða upp á ódýrari útgáfu af streymisveitunni með auglýsingum, en athygli vakti þegar Netflix tilkynnti svipaða stefnu nú á dögunum.

Sjá einnig: Gengi Netflix fellur um fjórðung

Disney hagnaðist um 470 milljónir dala á öðrum ársfjórðungi og dróst hagnaðurinn saman um tæplega helming á milli ára. Hagnaður nam 26 sentum á hlut sem var talsvert undir væntingum greiningaraðila. Tekjur fjórðungsins námu rúmlega 19 milljörðum dala og jukust um 23% á milli ára.

Gengi bréfa Disney hefur fallið um þriðjung frá áramótum og stendur í rúmum 105 dölum á hlut.