*

mánudagur, 14. júní 2021
Innlent 3. maí 2018 10:46

Áskrift að World Class veltir 3 milljörðum

Rekstrarhagnaður af 14 líkamsræktarstöðvum World Class nam 805 milljónum árið 2017 og stefnt er að frekari stækkun.

Ritstjórn
Björn Leifsson er stofnandi og framkvæmdastjóri World Class
Haraldur Guðjónsson

Björn Leifsson framkvæmdastjóri World Class segir að rekstrarhagnaður fyrirtækisins, sem rekur samnefndar líkamsræktarstöðvar, hafi numið 805 milljónum króna á síðasta ári og hagnaður fyrir skatta um hálfum milljarði að því er fram kemur í Morgunblaðinu.

Segir hann veltuna í áskriftarkortum að stöðvunum hafi numið nærri þremur milljörðum á árinu, en hann segir veltuna hafa gegnið ótrúlega vel undanfarin þrjú ár.„Ég hef verið með yfir 10% aukningu á ári. Við erum í dag með yfir 40 þúsund meðlimi, sem eru um 12% þjóðarinnar, og 16% af höfuðborgarsvæðinu,“ segir Björn sem játar því að þetta hljóti að vera heimsmet.

„Jú, margfalt. Það er algengt erlendis að 9% almennings stundi heilsurækt[...] Af þessari tölu eru áskriftarsamningar um 25 þúsund og um 20% korta eru skemmri tíma kort. Svo er töluvert af árskortum og fyrirtækjakortum.“

Byggir í Hafnarfirði og horftir til Garðabæjar

Stöðvar World Class eru í dag 14, en til viðbótar er félagið að byggja stöð í Hafnarfirði og framkvæmdir að fara í gang með stöð í Mosfellsbæ, við hlið sundlaugarinnar í bænum auk þess sem hann horfi til fleiri staða.

„Ég sé ákveðnar glufur enn á markaðnum. Þau svæði sem ég er einkum að horfa til núna eru miðbær Reykjavíkur, Akranes og Keflavík, og svo náttúrlega Garðabærinn,“ segir Björn sem segist hafa sótt um að byggja við Ásgarðslaugina í Garðabænum.

„Bæjarstjórinn vildi hins vegar fara með það í útboðsferli. Þrír sóttu um, ég, Sporthúsið og Rebook. Ég er enn að bíða eftir niðurstöðum þriggja manna nefndar, sem ætlaði upphaflega að skila í kringum páskana.“

Björn segist ekki vilja kúnna sem mæti lítið spurður út í hvort svokallaðir styrktaraðilar séu ekki bestu viðskiptavinirnir því þeir borgi en mæti lítið.„Um 5% viðskiptavinanna eru með litla mætingu, 80% eru með mikla, en 15% eru með sæmilega mætingu. Ég er ánægður með það. Núna er komið inn í sumarið, og við erum enn að fá um 10 þúsund mætingar á dag.“