Frestur til að nýta fyrsta hluta áskriftarréttinda á hlutabréfum Icelandair Group sem fengust í útboðinu síðasta haust rennur út í dag, fimmtudag.

Um er að ræða fyrsta flokk áskriftarréttinda sem kemur til innlausnar af þremur en síðari tveir flokkarnir verða til innlausnar í febrúar og ágúst á næsta ári. Gengi þessa hluta réttindanna er 1,13 krónur á hlut en gengi bréfa Icelandair stóð í 1,44 krónum við lokun markaða í gær.

Réttindi nýtt með greiðslu greiðsluseðils

Einhverjir kunna að hafa lyft brúnum yfir greiðsluseðli í heimabanka frá Icelandair en þau sem fengu slíkan seðil eru skráð eigendur áskriftarréttinda að nýju hlutafé í félaginu. Áskriftarréttindin stofnuðust við þátttöku í hlutafjárútboði félagsins í september á síðasta ári en allir fjárfestar sem fengu úthlutuð hlutabréf í útboðinu fengu jafnframt áskriftarréttindi. Eftir því sem Viðskiptablaðið kemst næst er þetta í fyrsta sinn sem svona áskriftarréttindi eru gefin út í íslensku hlutabréfaútboði.

Til að nýta réttindin þarf að greiða greiðsluseðilinn í síðasta lagi í dag, fimmtudag, en engin kvöð er á fjárfestum að nýta réttindin og mun greiðsluseðillinn falla niður eftir eindaga. Reiknað er með að nýju bréfin verði afhent um eða fyrir 30. ágúst næstkomandi.

Rétt er að geta þess að munur á markaðsgengi á kaupdegi og áskriftargengi myndar stofn til fjármagnstekna hjá einstaklingum og tekjuskatts hjá lögaðilum.