„Ég elska ekki þorramat, en hata hann þó ekki,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir laganemi um hvaða hug hún ber til þorramats.

„Ég á í frekar flóknu matarsambandi við þorramat myndi ég segja. Ég get alveg vel borðað mikinn hluta af þorramatnum, enda ekki matvönd manneskja að upplagi. En ég myndi þó ekki kjósa að borða þetta oft á ári,“ segir Áslaug Arna.

Hún segir stemninguna í kringum góð þorrablót í góðra vina hópi vera þess virði að leggja sér flestallt til munns. En hver skyldi uppáhaldsrétturinn hennar vera? „Ég elska þetta venjulega, hangikjötið, uppstúfið, rófustöppuna, flatkökur og lifrapylsu, en reyndar líka svið. Þau eru fín þótt þau séu ansi ófrýnileg. Þegar ég var yngri þá borðaði ég allt sviðið, allt frá tungunni til augans, en það var kannski meira til að vera jafn töff og amma fremur en að mér hafi fundist þetta einhver listagóður matur. Í dag kýs ég allavega að borða aðeins hluta af kjammanum.“

Nánar er rætt við Áslaugu Örnu og fleiri um skoðanir þeirra á þorramat. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.