Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, varformaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, tekur við sem dómsmálaráðherra á ríkisráðsfundi á morgun.

Í viðtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni sagði Áslaug að henni hefði verið greint frá þessu fyrir klukkustund. Áslaug er stödd í Finnlandi en þarf að breyta ferðatilhögun sinni til að ná á ríkisráðsfund á Bessastöðum klukkan fjögur á morgun. Áslaug sagði Landsrétt og útlendingamálin meðal þeirra mála sem biðu hennar í ráðuneytinu.

Áslaug er lögfræðingur frá Háskóla Íslands. Hún starfaði meðal annars sem blaðamaður á Morgunblaðinu og lögreglumaður áður en hún var kjörin á þing árið 2016.

Áslaug er fædd 30. nóvember 1990 og verður því 29 ára á árinu. Hún verður næst yngsti ráðherra Íslandssögunnar.