*

laugardagur, 18. janúar 2020
Innlent 18. janúar 2018 09:44

Áslaug: Borgarbúar „ekki kröfuharðir“

Frambjóðandi í leiðtogaprófkjöri spyr hví þjónusta við borgarbúa sé af skornum skammti þegar aldrei fari meira í borgarsjóð.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Áslaug María Friðriksdóttir borgarfulltrúi og frambjóðandi í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins spyr í aðsendri grein í Fréttablaðinu hvers vegna íbúar Reykjavíkur borgi meira en nokkurn tíma áður í borgarsjóð standi þjónustan við borgarbúa svona höllum fæti.

„Þetta er ekki flókið. Kannski finnst meirihlutanum í Reykjavík þetta ekki nógu spennandi verkefni,“ segir Áslaug María og telur upp grunnverkefni borgarinnar eins og hreinsa, sópa og salta götur og stíga, sinna viðhaldi gatnakerfisins, sorphirðu, og þjónusta aldraða og fatlaða ásamt því að mennta börnin og tryggja að foreldrar geti komist til vinnu á meðan.

„Meginþorri borgarbúa vill fá að vera í friði og komast í gegnum sín daglegu verkefni án þess að ákvarðanir í borgarstjórn séu þar að flækjast fyrir. Þeir eru ekki kröfuharðir. Það eina sem þeir vilja er að almenn þjónusta virki. Sveitarfélag hefur ekki svo flóknum skyldum að gegna.“

Segir Áslaug María nauðsynlegt að taka rekstur borgarinnar sjálfbæran og taka hann föstum tökum líkt og fjármálaskrifstofa borgarinnar hafi ítrekað bent á og Sjálfstæðismenn í borgarstjórn tekið undir fyrir daufum eyrum meirihluta Samfylkingar, Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar og Pírata.

„Svo virðist sem þeim finnist önnur verkefni skemmtilegri. Í komandi kosningum verður að skipta um meirihluta í Reykjavík. Meirihluta sem tekur grunnþjónustumálin alvarlega og snýr alvarlegri þróun í borginni við.“