*

þriðjudagur, 1. desember 2020
Fólk 22. október 2020 10:18

Áslaug Dagbjört til Þekkingar

Nýr upplýsingaöryggisstjóri Þekkingar, Áslaug Dagbjört Benónýsdóttir, kemur frá Terra en var áður hjá Hagstofunni.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Þekking hefur ráðið Áslaugu Dagbjörtu Benónýsdóttur í stöðu upplýsingaöryggisstjóra. Áslaug hefur mikla reynslu og þekkingu á ISO staðlinum ásamt gæðamálum sem mun nýtast Þekkingu og viðskiptavinum vel. Öll starfsemi Þekkingar hefur verið með ISO 27001 vottun frá 2009 en markmið staðalsins er að tryggja öryggi þeirra upplýsinga sem fyrirtækið vinnur með.

Áður starfaði Áslaug meðal annars sem forstöðumaður þjónustu og viðskiptasviðs hjá Terra hf. og einnig sem gæðastjóri. Nú síðast var hún í stöðu gæðastjóra og persónuverndarfulltrúa Hagstofu Íslands.

Áslaug hefur verið virkur þátttakandi í að efla fagþekkingu hérlendis á ISO staðlinum og var til að mynda formaður í stjórn ISO staðla faghóps Stjórnvísi á árunum 2013-15. Áslaug er með B.Sc. gráðu í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og M.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands.

Áslaug Dagbjört mun sinna rekstri stjórnkerfis upplýsingaöryggis Þekkingar ásamt því að veita viðskiptavinum ráðgjöf varðandi málefni tengd upplýsingaöryggi og persónuvernd.