Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, telur að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri eigi að íhuga afsögn vegna ákvörðunar borgarstjórnar um að leggja viðskiptabann á Ísrael. Þetta kemur fram í viðtali við hana í Fréttablaðinu .

„Okkur finnst málið miklu stærra en hann gerir sér grein fyrir. Það var kæruleysislega unnið. Í fyrstu heldur borgarstjóri því fram að málið hafi verið kannað af skrifstofu borgarlögmanns og innkaupasérfræðingum og tillagan brjóti ekki í bága við lög. Stuttu síðar kemur tilkynning frá utanríkisráðuneyti þar sem því þveröfuga er haldið fram. Þetta beinlínis brjóti gegn utanríkisstefnu,“ segir hún.

Áslaug segir alvarlegt að Dagur hafi samþykkt tillöguna án þess að gera sér grein fyrir afleiðingunum.

„Það sem er alvarlegt er að Dagur segir að hann átti sig á því að sniðganga Reykjavíkurborgar við vörurnar sé afar veik leið og muni ekki hafa þau áhrif að líf fólks á svæðunum sem um ræðir verði betra, heldur væri meira táknræn. Hann samþykkir tillöguna án þess að gera sér grein fyrir afleiðingum. Þegar viðbrögðin fara að berast í fjölmiðlum, vörur hverfa úr hillum í Bandaríkjunum, sala á íslensku vatni er í uppnámi, ferðaþjónustan kvartar og allar línur glóa í utanríkisráðuneytinu, þá vakna viðbrögð hjá Degi og hann er mest reiður sjálfum sér fyrir að skaða meirihlutann sem mér finnst lýsa sjálfhverfu,“ segir hún.

Áslaug segir viðhorf meirihlutans eins og enginn skaði hafi orðið.  „Eða að skaðinn skipti ekki máli heldur værum við í minnihluta að tromma upp einhvers konar skítamál á borgarstjóra.“