Áslaug Hulda Jónsdóttir hefur sagt starfi sínu lausu sem framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar. Starfið var auglýst um síðustu helgi. Áslaug segist kveðja fyrirtækið með söknuði. „Þetta er búinn að vera lærdómsríkur og skemmtilegur tími en ég er búin að era hjá fyrirtækinu í sjö ár og það er einfaldlega komið að nýjum tækifærum og áskorunum hjá mér.“

Nýlega var Áslaug kjörin formaður Samtaka sjálfstæðra skóla en hún mun áfram verea í samstarfi við stjórn Hjallastefnunnar um stefnu og áherslur fyrirtækisins. Hún situr einnig í bæjarstjórn Garðabæjar og er formaður bæjarráðs. Framhaldið er óráðið hjá Áslaugu Huldu en hún segist ætla að koma nýjum framkvæmdastjóra inn í starfið, vinna með stjórn og ljúka AMP-námi sínu við IESE í Barcelona núna vordögum.

Verkefni síðustu ára hafa verið spennandi og vandasöm í rekstri Hjallastefnunnar enda fyrirtækið vaxið hratt segir Áslaug Hulda. Hún segir tækifærin mörg og jákvætt hvað umræða og metnaður fyrir menntun hafi akist á síðustu misserum. „Það er fagnaðarefni og mikilvægt að við höldum áfram að auka við fjölbreytni og ólíka valkosti í íslensku skólakerfi.“