© Aðsend mynd (AÐSEND)

Áslaug Björt Guðmundardóttir hefur verið ráðin í starf ráðgjafa hjá Attentus – mannauði og ráðgjöf.

Fram kemur í tilkynningu um ráðninguna að Áslaug hefur víðtæka þekkingu og reynslu af stjórnun mannauðsmála. Hún starfaði um árabil hjá Íslandsbanka, meðal annars við markaðsmál, gæðamál, starfsþróunar- og fræðslumál og sem mannauðsstjóri hjá Deloitte á árunum 2007-2010. Áslaug hefur einnig starfað sjálfstætt við ráðgjöf og fræðslu um mannauðsmál. Hún vann á þeim tíma með fjölmörgum fyrirtækjum ásamt því að sinna stundakennslu í mannauðsstjórnun við Háskólann í Reykjavík.

Áslaug lauk MA gráðu í Human Resources Leadership frá RSM, Erasmus háskólanum í Rotterdam árið 2002 og BS gráðu í rekstrarfræði frá Háskólanum á Bifröst árið 1997. Áslaug lauk einnig BA gráðu í ritlist frá Háskóla Íslands árið 2012.

Áslaug er jafnframt höfundur bókarinnar Kynferðisleg áreitni sem Framtíðarsýn gaf út árið 1997.

Í tilkynningunni segir að mikill vöxtur hafi verið hjá Attentus að undanförnu, sífellt fleiri fyrirtæki nýti sér það að fá mannauðsstjóra til leigu. Þessi þjónusta hefur verið þróuð hjá Attentus síðastliðin fimm ár og hlaut fyrirtækið hvatningarverðlaun FKA árið 2012 fyrir þjónustuna. Hjá Attentus starfa nú átta starfsmenn, sex ráðgjafar og tveir sérfræðingar, sem sinna verkefnum á þessu sviði.