Tillaga Kjartans Magnússonar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að Hjálpræðisherinn yrði, líkt og Félag múslima á næstu lóð við hliðina, undanþeginn gatnagerðar- og byggingarréttargjaldi hefur verið felld í borgarstjórn að því er Morgunblaðið greinir frá.

„Tillagan varð lögð fram á grundvelli þeirrar starfsemi sem Hjálpræðisherinn stendur fyrir og hefur staðið fyrir í Reykjavík í rúma öld,“ segir Kjartan. „Hjálpræðisherinn, sem er trúfélag, virðist ekki njóta jafnræðis varðandi ókeypis úthlutun á byggingarlóðum hjá Reykjavíkurborg líkt og önnur trúfélög hafa fram að þessu fengið.“

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um lagði Kjartan tillöguna fram til að borgarstjórn sýndi trúfélögum jafnræði, en meirihluti borgarstjórnar hafnaði tillögunni með 9 atkvæðum gegn 5.

Mynduðu borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri-grænna og Pírata meirihluta gegn tillögunni, en borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallvina og óháði borgarfulltrúinn Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir ásamt þremur borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins af fjórum kusu með henni.

Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem er líkt og Kjartan, frambjóðandi í leiðtogaprófkjöri flokksins í borginni, kaus að sitja hjá en hún lagði fram eftirfarandi bókun við atkvæðagreiðsluna:

„Ég kýs að sitja hjá í stað þess að samþykkja tillögu þessa. Ég tel að ekki eigi að vera svo einfalt að skráð trúfélög geti sótt afslátt af gjöldum eða fengið lóðir án greiðslu. Skoða verður þetta mál heildstætt. Vel getur verði að tækifæri séu í því að gera samninga við félög  um afslátt af gjöldum ef þau vilja taka þátt í að sinna verkefnum sem styðja borgarsamfélagið og verkefnin eru í takt við markmið og stefnu borgarinnar. Það að um skráð trúfélag sé að ræða getur ekki eitt og sér verið nóg. Betur færi á að horfa til þess hvaða samfélagsverkefnum félög muni þá sinna gegn slíkum afslætti eða undanþágum.“