Þingmenn flæktust svolítið í myndmálinu í umræðum um tillögu forseta um að lengja þingfund í dag. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra líkti störfum þingmanna við störf bænda í sauðburði og tóku sumir þingmenn stjórnarandstöðunnar ekki undir þá líkingu. Unnur Brá Konráðsdóttir sagði að ólíkt þingmönnum væru bændur í sauðburði að búa til verðmæti.

Ásmundur Einar Daðason gekk lengra og bauð Össuri að koma í sauðburð í Dölunum í vor. Sagði Ásmundur að bændur þyrftu að kunna að forgangsraða í sínum verkum og að Össur gæti lært það í sauðburðinum hjá honum. Össur tók vel í þetta boð Ásmundar og sagðist reiðubúinn að koma í vinnu í Dalina, enda vanur sauðburði. Sagðist hann hafa verið átta ár í sauðburði á sínum yngri árum. Hvatti hann þingheim til að styðja þá Ásmund í þessum áformum með því að vinna hratt og vel til að þeir kæmust sem fyrst til vinnu. Mæltist hann því til þess að öllu málþófi yrði hætt.

Jón Gunnarsson gerði athugasemdir við þessi tilmæli því sauðburður væri jú ekki hafinn enn og því til lítils að klára mál með miklum flýti svo Ásmundur og Össur gætu rokið í sauðburðinn.

Forseti Alþingis var ekki alls kostar sátt við þessi orðaskipti þingmanna og minnti þá ítrekað á að ræða um atkvæðagreiðsluna og beina orðum sínum til forseta. Þingmenn sinntu þessu lítið og barði forseti því bjölluna af miklum móð en til lítils. Svo fór að meirihluti þingmanna samþykkti tillögu forseta um að lengja þingfund í dag.