Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Vinstri grænna, sagði í umræðum um vantraust á ríkisstjórnina að hann styðji ekki lengur ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna.

Ásmundur Einar sagði ástæðuna vera þá leið sem ríkisstjórnin er á í Evrópumálum. Hann tók þar í sama streng og Atli Gíslason gerði í sinni ræðu á Alþingi í dag. Ásmundur Einar sagði þjóðina klofna í herðar niður í málinu og að leggja ætti málið til hliðar. Vegna stuðnings ríkisstjórnar við aðildarferlið gæti hann ekki stutt hana lengur.

Tekist er á um vantrauststillögu sem Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, lagði fyrir þingið. Umræður hófust klukkan 16 í dag og standa enn yfir.