*

þriðjudagur, 4. ágúst 2020
Innlent 17. febrúar 2020 09:55

Ásmundur og Bjarnólfur stofna félag

Eldjárn Capital mun veita ráðgjöf í kaupum, sölu, og fjármögnun fyrirtækja. Stofnendur lengi unnið í bankastarfsemi.

Ritstjórn
Skrifstofur Eldjárn Capital er í húsnæði Sjávarklasans.
Haraldur Guðjónsson

Bankamennirnir Ásmundur Gíslason og Bjarnólfur Lárusson hafa stofnað ráðgjafarfyrirtæki fyrir fyrirtæki og fjárfesta í húsnæði Sjávarklasans, en félag þeirra starfar  undir merkjum Eldjárns Capital.

Ásmundur starfaði frá árinu 2016 fram í september í fyrra sem fjármálasérfræðingur hjá Arion banka, en þar áður frá 2006 hjá Glitni banka, forvera Íslandsbanka, og svo hjá slitabúinu frá árinu 2006.

Bjarnólfur hefur auk þess að starfa fyrir slitabú Glitnis frá nóvember 2009, og þar áður fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans frá 2004, verið eigandi bakarísins Passion í Reykjavík frá 2006.

Á linkedIn síðu nýja félagsins segjast þeir hlakka til að starfa með bæði nýjum og eldri viðskiptavinum:

„Okkar sérsvið er kaup og sala fyrirtækja, fjármögnun fyrirtækja, lánamál fyrirtækja, fjárhagsleg endurskipulagning, samningagerð, verðmöt, greining fjárfestingatækifæra og rekstrarráðgjöf. Við erum til húsa í Sjávarklasanum, að Grandagarði 16 í Reykjavík.“

Ásmundur er með meistaragráðu í fjármálum og alþjóðaviðskiptum frá Århús háskóla og B.s gráðu í sjávarútvegsfræðum frá Háskólanum á Akureyri. Bjarnólfur er með próf í verðbréfaviðskiptum auk námskeiða í ábyrgð og árangri stjórnarmanna frá HR. Jafnframt er hann með bæði mestaragráðu í fjármála, fyrirtækja og verðbréfalögum og B.Sc. gráðu frá sama skóla í viðskiptum, markaðsfræðum.