Ásmundur Tryggvason hefur hafið störf hjá Íslandsbanka sem forstöðumaður Fyrirtækjaráðgjafar. Hann starfaði sem forstöðuðumaður hjá Existu á árunum 2005-2011 og hefur víðtæka starfsreynslu á fjármálamarkaði, að því er kemur fram í tilkynningu frá Íslandsbanka.

Ásmundur starfaði áður hjá Íslandsbanka. Fyrst sem þjónustufulltrúi hjá bankanum, síðan sem sérfræðingur í greiningu á árunum 2000 til 2003 og sérfræðingur í fyrirtækjaráðgjöf frá 2003 til 2005. Að auki hefur hann setir í stjórnum fjármála-, tækni-, iðn,- síma- og útgáfufyrirtækja. Ásmundur er lögfræðingur að mennt og starfaði síðast sem lögmaður hjá Lögmönnum Bankastræti þar sem hann var meðeigandi.

„Ráðning Ásmundar í stöðu forstöðumanns fyrirtækjaráðgjafar Íslandsbanka er mikið ánægjuefni. Með honum koma sterk tengsl við atvinnulífið og umfangsmikil viðskiptareynsla. Ráðningin undirstrikar þá stefnu bankans að vera leiðandi í fjárfestingabankastarfsemi og móta þannig íslenskt viðskiptaumhverfi," segir Tryggvi Björn Davíðsson, framkvæmdastjóri markaða hjá Íslandsbanka, í tilkynningu.