Ásmundur Einar Daðason, formaður þingflokks Framsóknar, segir að það sé mikilvægt að annar af bönkunum verði áfram að stórum hluta í eigu almennings í landinu. Þetta kemur fram í pistli sem birtist á heimasíðu Framsóknar nú fyrir stuttu.

Hann gagnrýnir einnig fyrri ríkisstjórn Vinstri Grænna og Samfylkingar en hann segir að sú stjórn hafi ákveðið að afhenda kröfuhöfum bankann á síðasta kjörtímabili og stillt sér upp með fjármálakerfinu og kröfuhöfum í stað þess að standa með almenningi. Ásmundur segir:

„Það var greinilega ekki hugsunin að taka fast á þessum málum og verja hagsmuni Íslands. Eða voru menn kannski að hugsa um að láta kröfuhafana eiga bankanna tímabundið? Ef sú var raunin þá hlýtur að þurfa að gera úttekt á því hvað verðmæti bankans jókst frá þeim tíma til dagsins í dag.“

Ásmundur vill samfélagsbanka sem er milliliðalaust í eigu almennings.

„Í raun ætti að skoða þann möguleika að afhenda almenningi hluta bankans gegn skýrum skilyrðum og á hagstæðum kjörum. Verði þetta skoðað þá þarf hinsvegar að móta mjög skýrar og gegnsæjar reglur sem tryggja að ekki sé um að ræða aðkomu fárra útvaldra og að ekki sé hægt að framselja hlutina í von um skyndigróða. Ef vel tekst til þá gæti stofnun á slíkum samfélagsbanka orðið skynsamleg aðgerð bæði efnahagslega og lýðræðislega.“