Jóhannes Jónsson, starfsmaður hjá Ríkisskattstjóra, setti inn tilbúnar fjárhagsupplýsingar um sig og konu sína þegar hann útbjó glærupakka í tengslum við kynningu ríkisstjórnarinnar á skuldaleiðréttingu í gær.

Fjallað er um málið í Kjarnanum í dag. Þar segir að í glærupakkanum voru myndir af sérstöku umsóknarviðmóti á heimasíðu Ríkisskattstjóra, og tekið dæmi um par sem vill nýta sér skuldaleiðréttinguna. Á meðal upplýsinganna voru upplýsingar um séreignalífeyrissparnað Jóhannesar og eftirstöðvar tveggja lána hjá Arion banka.

Jóhannes segir í samtali við Kjarnann að þótt nöfn, kennitölur hans og konu hans og heimilisföng þeirra séu rétt þá gegni öðru máli um fjárhagsupplýsingarnar. Þær hafi hann búið til.

Í Kjarnanum segir að Jóhannes hafi „asnast til að setja nöfnin inn í glærupakkann í stað þess að nota skálduð nöfn, en hann hafi verið í þeirri trú að glærupakkinn væri ætlaður þrengri hóp en raunin varð.“