*

þriðjudagur, 21. janúar 2020
Erlent 18. júlí 2019 18:01

ASOS hrynur í verði

Breska netverslunarkeðjan lækkaði afkomuspá sína í dag vegna vandræða í vöruhúsum.

Ritstjórn
european pressphoto agency

Gengi hlutabréfa bresku netverslunarkeðjunnar Asos lækkaði um 23% í dag eftir að félagið lækkaði afkomuspá sína fyrir árið. Fyrirtækið gerir nú ráð fyrir að hagnaður ársins verði á bilinu 30-35 milljónir punda á meðan greiningaraðilar hafa að meðaltali gert ráð fyrir að hagnaður muni nema um 55 milljónum punda að því er fram kemur í frétt BBC.

Að sögn fyrirtækisins eru vandamál í vöruhúsum þess í Evrópu og Bandaríkjunum helsta ástæðan fyrir lækkun á afkomuspá. Vandamálin  hafa falist í því að fyrirtækið hefur átt í vandræðum með birgðastjórnun og hefur þar af leiðandi ekki getað boðið upp á jafn mikið úrval af vörum. Hefur þetta orðið til þess að hægja á tekjuvexti beggja vegna Atlantshafsins. 

Að sögn forstjóra Asos, Nick Beighton hefur endurnýjun á vöruhúsum í bæði Bandaríkjunum og Evrópu tekið lengri tíma en búist var við. Að hans sögn eru vandræðin vegna vöruhúsanna skammtíma vandamál en þó gæti tekið einhvern tíma að ná aftur í þá viðskiptavini sem hafa orðið fyrir truflunum. 

Asos hefur átt í töluverðum vandræðum síðasta árið þrátt fyrir mikinn vöxt á síðustu árum. Hlutabréfaverð fyrirtækisins hefur ekki verið lægra frá því í september árið 2014 og hefur lækkað um tæplega 66% á síðustu 12 mánuðum. 

Stikkorð: Asos