Ásta Dís Óladóttir framkvæmdastjóri hefur ákveðið að ljúka störfum sínum hjá Fríhöfninni. Starfsmenn Fríhafnarinnar fengu tilkynningu um það í gær, að því er fram kemur á vef Víkurfrétta .

Eins og VB.is greindi frá var Ásta Dís meðal umsækjenda um starf bæjarstjóra í Hafnarfirði fyrr í sumar en dró umsóknina til baka.

Að sögn Ástu var megin ástæða þess að hún dró umsóknina til baka sú að hún fékk fjölmargar áskoranir frá samstarfsfólki um að halda áfram í Fríhöfninni og sinna krefjandi verkefnum sem framundan væru.

Ásta Dís mun láta af störfum þann 3. september, en samkvæmt Víkurfréttum mun fljótlega eftir helgi vera tilkynnt hver mun tímabundið gegna stöðu framkvæmdastjóra þar til búið er að ráða í stöðuna.