Ásta Guðrún Helgadóttir, sem verið hefur Alþingismaður fyrir Pírata síðan 2015, og þingflokksformaður frá því þing var sett í byrjun þessa árs hefur tilkynnt að hún hafi stigið til hliðar sem þingflokksformaður.

Segir hún á facebook síðu sinni að afsögnin sé vegna ágreinings við meirihluta þingflokksins, en flokkurinn fór úr þremur í 10 þingmenn í kosningunum 29. október síðastliðin.

„Í ljósi ágreinings milli mín og meirihluta þingflokks Pírata varðandi innra skipulag þingflokksins hef ég ákveðið að stíga til hliðar sem þingflokksformaður Pírata,“ segir Ásta Guðrún á facebook síðu sinni.

„Við vorum með ólíka sýn á hvert þingflokkurinn ætti að stefna og því held ég að það sé farsælast að annar taki við því starfi. Hlakka til að gerast óbreyttur þingmaður á ný, en þá gefst meiri tími til að vinna að þeim málefnum sem eru mér hugleikin.“