Ásta Helgadóttir mun taka sæti á þingi fyrir hönd Pírata eftir sumarfrí. Jón Þór Ólafsson greindi frá því í gær að hann hyggðist ekki snúa aftur á þing eftir að sumarfríi lýkur og þótti sú ákvörðun koma á óvart.

Ásta er 25 ára gömul og sagnfræðinemi. Hún hefur stundað nám í bæði Varsjá í Póllandi og Tehran í Íran, en þó aðallega við Háskóla Íslands. Hún útskrifaðist úr MR árið 2010.

Fram kemur á vefsíðu Pírata að hún eigi þrjú höggsverð, tvö geislasverð, tvö trésverð og tvö frauðplastsverð. Hún æfði líka skylmingar og var að eigin sögn Norðurlandameistari í skylmingum einhvern tíma.

Píratar hafa mælst með frábært fylgi í skoðanakönnunum undanfarið og samkvæmt þeim yrðu þeir stærsti flokkurinn á þingi ef kosið yrði í dag.