Framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans, Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, var skipuð í stjórn alþjóðlegu klasasamtakanna TCI-network á ársfundi TCI sem fram fór í Antwerpen í Belgíu nú á dögunum. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu frá Íslenska ferðaklasanum.

Ásta Kristín fyrsti Íslendingurinn til að taka sæti í stjórn samtakanna, en Íslenski ferðaklasinn hefur verið hluti af samtökunum frá stofnun Ferðaklasans.

„TCI-network eru alheimssamtök klasa með höfuðstöðvar í Barcelona, en hlutverk samtakanna er að miðla þekkingu og reynslu klasaframtaka hvaðanæva af úr heiminum. Aðilar að samtökunum koma í dag frá yfir 500 fyrirtækjum og stofnunum frá yfir 110 löndum með alls 9000 virka einstaklinga innanborðs. Samtökin hafa verið starfrækt frá árinu 1998 en það var Michael Porter, aðalhugmyndasmiður klasafræðinnar sem stofnaði samtökin á sínum tíma,“ segir í tilkynningunni.

„Það er sérlega áhugavert að þær þjóðir heims sem standa framarlega þegar kemur að skilvirkni atvinnulífs og verðmætasköpun hafa allar unnið eftir skýrri klasastefnu til margra ára. Kanada er þar á meðal með skýra stefnu um svokallaða ofurklasa þar sem stjórnvöld og fyrirtæki vinna saman að uppbyggingu og þróun, þá hefur Belgía langa sögu þegar kemur að stuðningi og stefnumótun við klasa en orðið klasi kemur alls 14 sinnum fyrir í nýjum stjórnarsáttmála fyrir Flanders svæðið í Belgíu. Þá er mikil hefð fyrir þéttu samstarfi stjórnvalda, háskólasamfélagsins og fyrirtækja í gegnum klasasamstarf á öllum Norðurlöndunum sem studd er í gegnum skýra klasastefnu,“ er haft eftir Ástu Kristínu í tilkynningunni.