Ásta Möller þingmaður Sjálfstæðisflokksins hyggst bjóða sig fram í prófkjöri flokksins í Reykjavík og sækist eftir 3. sætinu. Prófkjörið fer fram þann 14. mars nk., að því er segir í fréttatilkynningu frá Ástu.

Í tilkynningunni segir ennfremur orðrétt: „Ásta Möller var fyrst kjörin á Alþingi í alþingiskosningum 1999, var varaþingmaður frá 2003 til 2005. Í kosningunum vorið 2007 varð hún 7. þingmaður í Reykjavíkurkjördæmi norður. Í upphafi þessa kjörtímabils var hún kjörin formaður heilbrigðisnefndar Alþingis og formaður Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins. Auk þess var hún kjörin í framkvæmdastjórn Alþjóðaþingmannasambandsins í apríl á síðasta ári. Þá á hún sæti í fjárlaganefnd.

Í störfum sínum hefur Ásta Möller lagt sérstaklega áherslu á heilbrigðismál, málefni aldraðra og önnur velferðarmál fjölskyldunnar, auk lífeyrismála og málefna launamanna.

Ásta hefur gengt fjölmörgum forystustörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hún situr í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins og er ritari þingflokks sjálfstæðismanna.  Ásta var formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna 2005-2007 og sat í stjórn fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík 2003-2006.   Þá var hún formaður heilbrigðis-og trygginganefndar Sjálfstæðisflokksins um árabil.

Ásta Möller hefur lokið BSc prófi í hjúkrunarfræði og meistaraprófi í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands. Hún hefur starfað við hjúkrun, stjórnun og kennslu í íslenskri heilbrigðisþjónustu og gegndi formennsku í fag- og stéttarfélögum hjúkrunarfræðinga frá 1989-1999.“