Ásta Ósk Hlöðversdóttir hefur verið ráðin bruggmeistari Ölvisholts. Ásta var önnur stofnenda hún/hann brugghúss sem tók þátt í Startup Reykjavík 2015. Hún hefur viðamikla reynslu af bjórgerð og var í stjórn Fágunar, félags áhugafólks um gerjun auk þess sem hún hefur unnið til ýmissa verðlauna í keppnum innan íslenska bruggsamfélagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ölvisholti.

„Ásta lauk B.Sc. gráðu í umhverfisverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2004 og hefur undanfarin ár kennt efnafræði og eðlisfræði við Háskólabrú Keilis. Ásta Ósk mun hafa yfirumsjón með allri bjórgerð í Ölvisholti og bera ábyrgð á bruggun fastra bjóra, tímabilsbjóra og þróun nýrra uppskrifta. Þess má geta að Ásta er fyrsta konan til að gegna starfi atvinnu-bjórbruggara á Íslandi og það er skemmtileg tilviljun að hún mun hefja störf hjá Ölvisholti á sjálfan bjórdaginn, 1. mars,“ segir í tilkynningunni.

Bjórframleiðsla hófst í Ölvisholti árið 2007 og er það eitt af fyrstu handverksbrugghúsum landsins. Brugghúsið er staðsett á uppgerðum sveitabæ rétt fyrir utan Selfoss þar sem hópum býðst að kynna sér framleiðsluna. Ölvisholt framleiðir m.a. bjórana Skjálfta, Skaða, Sleipni, Lava og Móra að ógleymdum OMG súkkulaðiporternum sem kemur í sölu fyrir páskana.