Ásta Pétursdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri ÍMARK, félags markaðsfólks á Íslandi, og tekur hún við af Klöru Vigfúsdóttur sem nú snýr til annarra starfa. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Ásta tók við starfinu tímabundið þegar Klara fór í fæðingarorlof síðasta sumar en tekur nú við starfinu til frambúðar. Hún lauk meistaragráðu í verkefnastjórnun (MPM) frá Háskólanum í Reykjavík árið 2012 og þar áður lauk hún B.Sc í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Áður starfaði Ásta sem rekstrarstjóri Blue Lagoon spa en þar áður var hún hjá Arion banka.

„Starf framkvæmdastjóra ÍMARK er mjög fjölbreytt, allt frá nánu samstarfi við hin ýmsu fyrirtæki og yfir í að skipuleggja stóra viðburði fyrir félagsmenn og aðra gesti. Stærsti viðburður ársins er einmitt framundan, 13.mars, en það er ÍMARK dagurinn og Lúðurinn en allur minn tími þessa dagana fer í að undirbúa. Dagurinn verður sérstaklega spennandi í ár,“ segir Ásta.

Ásta er í sambúð með Inga Rafnari Júlíussyni, viðskiptafræðingi og eiga þau þrjú börn.