*

föstudagur, 30. október 2020
Innlent 14. júlí 2020 16:00

Ásta ráðin framkvæmdastjóri Krónunnar

Ásta Sigríður Fjeldsted hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Krónunnar en hún mun hefja störf 1. október næstkomandi.

Ritstjórn
Ásta Sigríður Fjeldsted, nýráðinn framkvæmdastjóri Krónunnar
Haraldur Guðjónsson

Ásta Sigríður Fjeldsted hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Krónunnar og hefur hún störf 1. október 2020. Hún tekur við af Grétu Maríu Grétarsdóttir sem gegndi stöðunni frá september 2018.

Ásta Sigríður hefur verið framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands frá 2017. Hún starfaði þar áður hjá ráðgjafarfyrirtækinu McKinsey & Company frá árinu 2012, bæði á skrifstofum þess í Tókýó og Kaupmannahöfn, þar sem hún tók þátt í eða leiddi fjölda smærri og stærri greininga-, umbóta- og umbreytingaverkefna.

Hún hefur einnig starfað hjá IBM í Danmörku og stoðtækjaframleiðandanum Össuri hf., bæði í Frakklandi og á Íslandi. Ásta Sigríður er vélaverkfræðingur með M.Sc. gráðu frá DTU, Tækniháskólanum í Danmörku.

„Það er mikill styrkur fyrir Festi að fá Ástu Sigríði til að taka að sér að leiða Krónuna og það reynslumikla starfsfólk sem þar starfar. Krónan hefur verið að gera frábæra hluti undanfarin ár og framundan eru miklar breytingar í rekstrarumhverfinu og þar kemur reynsla hennar okkur til góða,“ er haft eftir Eggerti Þór Kristóferssyni, forstjóra Festi, í fréttatilkynningu.

„Ég tek með mikilli tilhlökkun við starfi framkvæmdastjóra þessa stóra og mikilvæga fyrirtækis. Öflug, hagkvæm og ábyrg matvöruverslun er einn lykilþátta í hagsæld okkar og lífskjörum almennings. Krónan er þar afskaplega spennandi fyrirtæki sem hefur verið í mikilli sókn undanfarin ár. Krónan hefur á að skipa fjölda framúrskarandi starfsfólks sem hefur verið í fararbroddi á mörgum sviðum og munum við halda áfram því góða starfi, ásamt því að fást við þær miklu breytingar sem eru að verða á smásölumarkaðnum.“ segir Ásta Sigríður Fjeldsted.