Ástæða er til að skoða frekar bókhald Eirar til að ganga úr skugga um hvort viðskipti eða viðskiptahættir sem telja megi óeðlilega hafi viðgengist þar á síðustu árum, að mati Deloitte. Í skýrslu, sem fyrirtækið vann fyrir Eir, er m.a. farið yfir greiðslur úr þróunarsjóði á árunum 2009-2011.

Greiðslurnar námu samtals 2,7 milljónum króna og voru vegna dagpeninga, flugferða, gistinga og veitinga erlendis sem tengjast fyrrverandi forstjóra og fjölskyldumeðlimum hans, fyrrverandi fjármálastjóra Eirar og maka hans, fyrrverandi framkvæmdastjóra rekstrar og fyrrverandi starfsmanni Eirar.

Allar greiðslurnar voru samþykktar, ýmist af fyrrverandi forstjóra og/eða fjármálastjóra. Í skýrslunni segir að út frá þeim gögnum sem skoðuð hafi ekki verið sýnt fram á að greiðslurnar tengist með beinum hætti rekstri Eirar og telur Deloitte því líkur að um óeðlilegar greiðslur hafi verið að ræða.

Í ljósi þess telur Deloitte ástæðu til að kanna bókhald Eirar frekar. Í framhaldi af slíkri skoðun og með hliðsjón af ofangreindu þurfi að meta hvort stjórnendur kunni að hafa farið á svig við lög í störfum sínum fyrir stofnunina.