„Ég held að það sé mjög góð ástæða til að vera bjartsýnn, því skilningurinn hefur aukist,“ segir Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, spurður um hvort hið opinbera sé vakandi fyrir þörf fyrir auknum framlögum til háskólanna.

„Ef við horfum á stóru myndina þá hefur þörf Íslendinga fyrir aukna verðmætasköpun aukist mjög mikið á síðastliðnum árum. Til að geta haft þau lífsgæði sem við viljum hafa hér á Íslandi – hvort sem við erum að horfa til ráðstöfunartekna heimilisins eða þeirrar þjónustu sem við njótum í samfélaginu – þá þarf meiri verðmætasköpun. Þar að auki þurfum við að greiða fyrir þær skuldbindingar sem við höfum tekið á okkur sem þjóð. Það krefst enn meiri verðmæta. Þó að auðlindir okkar séu mjög góður grundvöllur fyrir verðmætasköpun, þá skapast þessi verðmæti ekki með því að ganga enn lengra í því að nýta þær – við verðum að gera þetta á sjálfbæran hátt. Það sem þarf til er hugvit. Við þurfum að eiga þennan mannauð, þetta umhverfi sem getur fóstrað nýjar hugmyndir, nýja tækni, ný tækifæri og nýja hluti sem við getum síðan skapað verðmæti úr. Þar gegna háskólar algjöru lykilhlutverki. Ef við ætlum að ná þessu markmiði, þá verðum við að fjárfesta í góðri háskólamenntun.“

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð .