Nokkuð hefur verið fjallað um stórfelld kaup sjóðs á vegum Gam Management (Gamma) á fasteignum miðsvæðis í Reykjavík en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur umræddur sjóður keypt um 150 íbúðir fyrir um fjóra milljarða króna. Stærstur hluti íbúðanna er nú þegar í útleigu.

Haustið 2011 gaf Gamma út skýrsluna Upp úr öldudalnum þar sem fjallað var um íbúðamarkað á Íslandi. Skýrslan var ekki gerð opinber en Viðskiptablaðið hefur nú komist yfir skýrsluna og fjallað verður um það helsta sem fram kemur í henni hér á opnunni.

Í skýrslu Gamma, sem er rúmlega 60 blaðsíður, er fjallað nokkuð ítarlega um fasteignamarkaðinn út frá ýmsum sjónarmiðum, t.d. framboð af íbúðarhúsnæði, íbúðaþörf, aldri landsmanna og lýðfræði, staðsetningu í víðum skilningi og þróun fasteignaverðs síðustu áratugi svo fátt eitt sé nefnt. Þá er jafnframt fjallað um það hvort betra sé að eiga eða leigja húsnæði og eins er varpað upp mynd af mögulegu fasteignafélagi sem myndi kaupa upp íbúðir til útleigu – sem er einmitt það sem Gamma hefur gert síðustu misseri.

Í skýrslunni kemur m.a. fram að búast megi við verulegum skorti af nýjum fasteignum á næstu árum sem leiða muni til hækkandi íbúðaverðs.

Nánar er fjallað um málið í ítarlegri úttekt um skýrslu Gamma í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.