Erlendur Hjaltason forstjóri Exista og formaður Viðskiptaráðs sagði í setningarræðu sinni á Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs Íslands sem nú stendur yfir á Nordica Hótel að ástand gengismála hér á landi væri óviðundandi. ?Ekki verður unað við núverandi ástand gengismála mikið lengur,? sagði Erlendur. Með þessu vísaði hann til þess að gengissveiflur voru miklar á síðasta ári. "Aukin kostnaður íslenskra fyrirtækja vegna hviklyndis krónunnar minnkar samkeppnishæfni þeirra á leikvelli alþjóðaviðskipta. Tíðar og miklar sveiflur hafa slæm áhrif á rekstur út og innflutningsfyrirtækja hér á landi og eykur áhættuálag á lán íslenskra fyrirtækja í erlendri mynt," sagði Erlendur.

"Það virðist sem sum fyrirtæki hafi gefist upp á krónunni og vilji heldur gera upp og skrá sig í evrum eða annarri mynt. Að sjálfsögðu er farsælast að í þessu eins og öðru að athafnafrelsi fyrirtækjanna sé sem mest þannig að þau geti valið þann gjaldmiðil sem þeim hentar best," sagði Erlendur.

Erlendur hvatti jafnframt til þess að opin og upplýst umræða um gengismál yrði tekin upp hér á landi á næstunni. Erlendur telur að upptaka evrunnar verði að vera rædd samhliða inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Erlendur telur þó að innganga í ESB yrði hinsvegar að ýmsu leiti afturför þar sem Ísland býr við meira viðskiptafrelsi og betra skattkerfi en víðast hvar innan Evrópusambandsins.
.
Þá gagnrýndi Erlendur hvalveiðar í atvinnuskyni og sagði þá ákvörðun stjórnvalda að hefja hvalveiðar að nýju vera misráðna. ?Með því að hefja hvalveiðar í atvinnuskyni erum við að storka umhverfinu með þeim hætti að það getur skaðað íslenska hagsmuni mun meira en sem nemur þeim ávinningi sem af hvalveiðum hlýst,? sagði Erlendur.