Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður Atvinnuveganefndar segir að stjórnvöld verði að bregð­ast skjótt við þeirri þróun sem hefur átt sér stað í Mývatni und­an­far­ið.

Í yfirlýsingu sem Jón sendi frá sér í morgun segir að yfir­völd verði að bregð­ast við með sama hætti og þegar brugð­ist er við nátt­úru­ham­förum af fullum þunga. Skipa verði hóp sérfræðinga sem greinir vandann og komi með tillögur um úrbætur. Fámennt sveitarfélag ráði ekki við verkefnið og því verður ríkisstjórnin/þingið að tryggja það fjármagn sem til þarf. Segir hann engu mega til spara og sumarið megi ekki líða án þess að það verði notað til þeirra framkvæmda sem nauðsynlegar eru.

Fyrir um einum og hálfum mánuði var greint frá því í Fréttablaðinu að lífríkið við Mývatn væri undir gríðarlegu álagi. Óhemju magn af svokölluðum blábakteríum hefðu mælst í vatninu síðastliðin tvö sumur. Þessar bakteríur hefðu yfirtekið lífríki vatnsins suma daga og magnið væri tólffalt það magn sem Alþjóðlega heilbrigðisstofnunin (WHO) varar við. Aleiðingar þessa er m.a. að bleikjan í vatninu er svo gott sem horfin og kúluskíturinn, sem er friðlýst tegund, virðist auk þess horfinn. Í fyrrasumar veiddust 319 hornsíli í vatninu samanborið við 3 til 14 þúsund í sambærilegum rannsóknum síðasta aldarfjórðung.

Veiðifélag Laxár og Krákár hefur einnig sent frá sér ályktun þar sem botni Mývatns er líkt við uppblásinn eyðisand og kallað er eftir aðgerðum.