Hækkandi olíuverð og minnkandi tiltrú fjárfesta vegna átaka í Líbýu hafa leitt til lækkana í kauphöllum Evrópu í dag. Hlutabréfavísitalan Stoxx Europe 600 hefur lækkað um tæplega 1% í dag og þá féll FTSE vísitalan um 1,2%.

Hlutabréf í kauphöllunum í Frankfurt og París hafa einnig lækkað í verði. Fregnir af ofbeldisverkum í Líbýu og viðbrögðum olíufyrirtækja þar í landi, sem nú huga að því að senda starfsmenn sína úr landinu, hafa mikil áhrif á fjárfesta og olíuverð rokið upp.

Átökin í Líbýu þykja mun harðari en mótmæli í löndum líkt og Egyptalandi og Túnis. Á vef Wall Street Journal segir Jim Reid, sérfræðingur hjá Deutsche Bank, að ástandið í landinu minni heldur á borgarastyrjöld en mótmæli.

Líbýa er níunda stærsta olíuríki heims og býr yfir mestum olíuauðlindum af Afríkuríkjum.